Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Á sandi byggja íslendingar hús

Fyrir nokkrum árum byggðu margir sandkastala svo hátt að úr hrundi. Það var gert umfram efni sandkassans og því tekið að láni úr öðrum sandkössum. Nú ættu þessir sömu aðilar að vera að moka aurnum aftur í erlendar uppfyllingar. En þess reynist þó ekki þörf þar sem almenningur kaus að trúa á glópagull og grafa samviskusamlega eigin gröf á meðan lánsaurnum er skotið undan. Land og þjóð láta bókstaflega hrauna yfir sig þessa dagana og yfirvöld kasta sandi í augu þeirra sem krafsa í sandbakkann. Almúginn er látinn lúta að hinum og þessum sandkóngum sem vilja að meira sé greitt fyrir sneið af sandkökunni. Stjórnin á mölinni er með samfelldan leirburð í mölmiðlum um að þetta sé gert fyrir fjölskyldurnar og segja allt gott og margblessað af þeim sjálfum.

Fólk úr öðrum sandkössum hefur í auknum mæli spássérað um sandkassann okkar og hefur það verið sandnáma margra síðustu misserin. Siðareglur sandkassans segja þó að eftir nokkur ár verði afraksturinn líklega kominn í fáa vasa eins og hefð er fyrir í sandkassasamfélaginu. Það verður sennilega í samkeppnisuppblástur á ferðamálaeyrinni ef fræum verður ekki sáð sem víðast.

Stjórnarflokkarnir virðast vilja skemma flesta sandkastala landsmanna og byggja moldarkofa að eigin geðþótta þess í stað. Einu sandkastalarnir sem látnir verða í friði eru þeir sem eru við sandfjörur og sækja í sandsílin utan landsteina.  Þá verða þeir sem eiga sand af seðlum einnig látnir í friði svo og einnig þeir sem bæði trúa og vinna fyrir eyðimerkurguðinn mikla.

Markvisst er mokað yfir allar aðgerðir sem eiga að græða og styrkja jarðveg þjóðarinnar, svo sem að endurnýja grunninn fyrir stjórnarskrána, skoða sambönd við nálæga sandkassa og hlaða veggi til varnar spillingar sandkassastjórnarliða. Á meðan landið er að gjósa virðast landsmenn kjósa að stinga höfðinu í sandinn og krafsa í eldfjallaöskuna fremur en að láta steypa undir samfélagssökkulinn, sandblása kerfið, sparsla í skemmdirnar og njóta fjölbreytts landslags.
 
 

Höfundur

Albert Svan
Albert Svan

Eldri færslur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband